Fótbolti

Ísak Snær meiddur og missir af fyrsta leik tíma­bilsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson við undirskriftina hjá Rosenborg.
Ísak Snær Þorvaldsson við undirskriftina hjá Rosenborg. Mynd/Rosenborg

Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður norska knattspyrnuliðsins Rosenborg, er staddur með liðinu á Spáni þrátt fyrir fréttir um annað. Hann missir hins vegar af bikarleik gegn Patrik Sigurði Gunnarssyni og félögum í Viking.

Fyrr í dag birti Fótbolti.net frétt þess efnis að Ísak Snær væri meiddur og væri því ekki með Rosenborg á Spáni þar sem liðið er í óða önn að undirbúa sig fyrir komandi tímabil í norsku úrvalsdeildinni.

Ísak Snær svaraði fréttinni með því að birta myndband sem sjá má hér að neðan. Þar segir Ísak veðrið verulega gott í Noregi og að hann sé ekki á Spáni. Það er þó deginum ljósara að leikmaðurinn er á Spáni.

Það er þó staðfest að Ísak Snær hafi meiðst áður en Rosenborg hélt til Spánar. Á vef félagsins segir að hann hafi meiðst fyrir tæpum þremur vikum á vöðva en verði klár þegar leikar hefjast í norsku úrvalsdeildinni þann 10. apríl næstkomandi.

Rosenborg mætir Viking í fyrstu umferð deildarinnar en liðin eigast einnig við í norska bikarnum þann 12. mars næstkomandi. Ísak Snær missir hins vegar af þeim leik.

Ísak Snær samdi við Rosenborg síðasta haust eftir frábært tímabil með Breiðabliki þar sem liðið stóð uppi sem Íslandsmeistari. Hann var annar Íslendingurinn sem liðið fékk til sín á stuttum tíma en um mitt sumar var Kristall Máni Ingason keyptur frá Víking.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×