Fótbolti

Fjögurra ára bann fyrir að sparka í Ramsdale

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Það var allt á suðupunkti eftir leik Tottenham og Arsenal í síðasta mánuði.
Það var allt á suðupunkti eftir leik Tottenham og Arsenal í síðasta mánuði. Chris Brunskill/Fantasista/Getty Images

Joseph Watts, 35 ára gamall stuðningsmaður Tottenham Hotspur, hefur játað sök fyrir dómi eftir að hafa sparkað í markvörð Arsenal þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni fyrr í vetur.

Arsenal hafði betur þegar erkifjendurnir mættust í síðasta mánuði. Eftir að flautað hafði verið til leiksloka var allt á suðupunkti eins og svo oft vill verða þegar þessi lið mætast.

Einhverjir gengu þó of langt í ærslaganginum og áðurnefndur Watts prílaði upp á auglýsingaskilti fyrir aftan markið sem Aaron Ramsdale varði í seinni hálfleiknum og sparkaði í markvörðinn. Hann var í kjölfarið ákærður fyrir líkamsárás.

Watts mætti fyrir dóm í dag og játaði þar sök í málinu. Hann játaði einnig að hafa hent fjórum smápeningum inn á völlinn á meðan leik stóð.

Watts var dæmdur í fjögurra ára bann frá fótboltaleikjum fyrir brotin. Honum var einnig gert að greiða markverðinum hundrað pund í skaðabætur sem samsvarar rétt rúmum sautján þúsund íslenskum krónum. Þess má til gamans geta að Ramsdale er með rétt tæplega 62 þúsund pund í vikulaun og þénar því rúm hundrað pund á hverjum fimm mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×