Sport

Odermatt vann aftur gull og Gauti á meðal fimmtíu efstu

Sindri Sverrisson skrifar
Marco Odermatt glaðbeittur eftir að hafa aftur unnið gullverðlaun á HM.
Marco Odermatt glaðbeittur eftir að hafa aftur unnið gullverðlaun á HM. Getty

Svisslendingurinn Marco Odermatt bætti við öðrum heimsmeistaratitli á HM í alpagreinum í Frakklandi í dag þegar hann vann sigur í stórsviginu.

Odermatt, sem hafði áður unnið brun, var næstefstur eftir fyrri ferðina í stórsviginu í dag, 58/100 úr sekúndu á eftir Marco Schwarz frá Austurríki.

Schwarz dróst hins vegar niður í 3. sæti í seinni ferðinni en Odermatt vann og landi hans, Loic Meillard, fékk silfur eftir að hafa orðið 32/100 úr sekúndu á eftir Odermatt.

Odermatt, sem er 25 ára, hafði ekki náð verðlaunasæti í átta tilraunum á heimsmeistaramóti áður en kom að bruninu en er nú búinn að fá tvö HM-gull um hálsinn, eftir að hafa einnig orðið ólympíumeistari í stórsvigi fyrir ári síðan.

Hann er yngstur karla til að vinna tvenn gullverðlaun á HM síðan árið 2007 þegar Norðmaðurinn Aksel Lund Svindal vann brun og stórsvig.

Gauti Guðmundsson varð í 45. sæti í stórsviginu, af 60 keppendum, samtals rúmum 28 sekúndum á eftir Odermatt.

Gauti og Jón Erik Sigurðsson kepptu í undankeppninni í gær en hvorugur þeirra komst í hóp þeirra 25 efstu sem komust beint áfram í aðalkeppnina. Ísland fékk hins vegar úthlutað einu sæti og hlaut Gauti það eftir að hafa verið á undan Jóni Erik í undankeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×