Íbúar í Langholtshverfinu lýstu því sumir sem um jarðskjálfta hefði verði að ræða þegar hávær sprenging varð rétt fyrir klukkan hálf þrjú. Svörtum jeppa hafði verið lagt við metandælu bensínstöðvarinnar og stuttu síðar varð hár hvellur.
Tveir metankútar voru undir bílnum. Annar þeira sprakk og þurfti töluverða aðgerð hjá slökkviliðinu að gata hinn kútinn og granda honum.
Tveir voru fluttir á bráðamóttöku en hvorugur var í lífshættu að því er fram kom í máli varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Samkvæmt heimildum fréttastofu má telja ótrúlegt að ökumaður svarta jeppans hafi ekki slasast lífshættulega við sprenginguna.
Þannig sýnir myndband af atvikinu hvernig bíllinn lyftist heilmikið við hvellinn og ökumaðurinn kastast langt í burtu. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Tæknideild lögreglu rannsakaði vettvang í gær.
Veistu meira um málið? Vísir tekur við ábendingum á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.