Handknattleikssamband Íslands í samstarfi við ÍA og íþróttamannvirki Akraneskaupstaðar byrjuðu í gær með kynningu á handbolta fyrir börn á grunnskólaaldri. Fyrstu æfingarnar voru í gær og þær verða næstu sjö sunnudaga í íþróttahúsinu á Vesturgötu.
Þjálfarar eru þau Ingvar Örn Ákason og Kolbrún Helga Hansen og sá fyrrnefndi sagði frá verkefninu í Handkastinu í gær.

„Það mættu samtals 140 krakkar á fyrstu æfinguna. Það eru æfingar fyrir 1.-4. bekk saman og svo 5.-7. bekk saman. Það er reyndar búið að skamma okkur fyrir að vera ekki búin að plana æfingar fyrir 8.-10. bekk. Það hlýtur að vera framhaldið og það er talað um að þrískipta æfingunni í húsinu á Vesturgötu,“ sagði Ingvar.
Aðsóknin var svo mikil að boltafjöldinn dugði ekki. „HSÍ þarf að kaupa fleiri bolta,“ sagði Ingvar léttur.
„En þetta er frábært og planið að koma þessu á koppinn. Svo kíkir landsliðsfólk á æfingar og hugsanlega einhverjir yngri landsliðsþjálfarar. Það á að setja svolítið mikið í þetta og þetta er búið að vera lengi í undirbúningi. Planið er að innan skamms verði ÍA komið á yngri flokka mót í handbolta,“ sagði Ingvar.
Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér fyrir ofan. Umræðan um handboltaæfingarnar á Akranesi hefst á 55:30.