Barcelona komið með átta stiga forskot á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raphinha fagnar marki sínu í kvöld.
Raphinha fagnar marki sínu í kvöld. Vísir/Getty

Barcelona er komið með átta stiga forskot í spænsku deildinni í knattspyrnu eftir öruggan 3-0 sigur á Sevilla í kvöld. Öll mörk Barcelona komu í síðari hálfleik.

Fyrr í dag tapaði Real Madrid stigum í toppbaráttunni þegar liðið beið lægri hlut gegn Mallorca 1-0. Barcelona hafði því tækifæri til að auka forystu sína á toppnum í átta stig og það þurfti ekki að segja þeim það tvisvar.

Börsungar voru þó lengi í gang og staðan var markalaus að loknum fyrri hálfleiknum. Á 58.mínútu kom hins vegar fyrsta markið en þá skoraði hinn margreyndi Jordi Alba eftir sendingu frá Franck Kessie.

Við þetta opnuðust flóðgáttirnar. Gavi skoraði á 70.mínútu eftir sendingu Raphinha og Brasilíumaðurinn skoraði síðan sjálfur níu mínútum síðar þegar Alba lagði upp fyrir hann.

Lokatölur 3-0 og forysta Barcelona á toppnum því orðin átta stig. Barcelona er því komið með yfirhöndina í titilbaráttunni en fjórtán stig eru niður til Real Sociedad í þriðja sætinu og því allt útlit fyrir að aðeins Real Madrid geti ógnað Börsungum úr þessu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira