Sara Björk gaf þetta út í pistli á samfélagmiðlum í dag. Hún skrifar pistil sinn á ensku en endar hann á að segja: Áfram Ísland.
Sara Björk hefur verið í íslenska landsliðinu í sextán ár og á landsleikjametið sem eru 145 leikir. Hún tók við fyrirliðabandinu af Katrínu Jónsdóttur fyrir tæpum áratug.
Sara Björk lék sinn fyrsta A-landsleik á móti Slóveníu í ágúst 2007 þegar hún var ekki búin að halda upp á sautján ára afmælið sitt.
Hún hefur átt landsleikjametið síðan hún sló met Katrínar Jónsdóttur árið 2020.
145 A landsleikir, 24 mörk, fjögur EM.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) January 13, 2023
Takk fyrir allar minningarnar Sara Björk.
It's been some ride @sarabjork18 - thank you for all the memories.#dottir pic.twitter.com/YHbcwfXlh7
Sara gefur ekki út sérstaka ástæðu fyrir því að hún sé hætt í landsliðinu en segir að þetta hafi verið langur og ánægjulegur tími en að nú sé kominn tími til að segja bless.
„Þetta hefur verið eitt svakalegt ferðalag,“ skrifaði Sara Björk Gunnarsdóttir meðal annars í pistli sínum.
Sara hefur verið með í öllum fjórum Evrópukeppnum íslenska landsliðsins.
Sara endar á því að þakka Knattspyrnusambandi Íslands fyrir allt samstarfið öll þessi ár og óskar þess að sambandið og kvennalandsliðið eigi bjarta framtíð.
Sara er nú leikmaður Juventus á Ítalíu en hefur verið að glíma við meiðsli á þessu tímabili. Hún lék áður með stórliði Lyon í Frakklandi og þar áður með Wolfsburg í Þýskalandi. Hún vann Meistaradeildina tvisvar með Lyon og hefur unnið marga landstitla með liðum sínum í Svíþjóð, Þýskalandi og Frakklandi.
Sara hefur spilað sem atvinnumaður í Evrópu frá árinu 2011. Hún sneri aftur á fótboltavöllinn í fyrra eftir að hafa eignast barn árið 2021.
Sara hefur tvisvar verið kosin Íþróttamaður ársins, fyrst 2018 og svo aftur árið 2020.