Handbolti

Álaborg staðfestir brottför Arons

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Pálmarsson snýr aftur heim til Íslands í sumar eftir fjórtán ár erlendis.
Aron Pálmarsson snýr aftur heim til Íslands í sumar eftir fjórtán ár erlendis. vísir/hulda margrét

Álaborg hefur staðfest að Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins, muni yfirgefa félagið eftir tímabilið. Hann gekk í raðir þess í fyrra.

Vísir greindi frá því í morgun að Aron væri á förum frá Álaborg og myndi ganga í raðir FH eftir tímabilið.

Álaborg hefur nú staðfest brottför hans. Í frétt á heimasíðu félagsins segir að hann hafi óskað eftir því að losna undan samningi sínum við Álaborg af persónulegum og fjölskylduástæðum.

„Frá fyrsta degi hef ég verið ótrúlega glaður að taka þátt í þessu spennandi verkefni hjá Álaborg þar sem allir hafa komið vel fram við mig; stuðningsmenn, þjálfarar og samherjar. Í fullkomnum heimi væri ég enn hér á næsta tímabili en stundum tekur lífið beygju. Þess vegna ákvað ég að snúa aftur heim til Íslands í sumar eftir mörg ár erlendis,“ sagði Aron í fréttinni.

„Ég er mjög þakklátur fyrir skilninginn sem félagið sýndi stöðu minni og það ætti ekki að vera neinn vafi á því að ég geri allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja liðinu fleiri titla það sem eftir lifir tímabilsins.“

Aron skrifaði undir þriggja ára samning við Álaborg sumarið 2021 en ljóst er að hann verður bara tvö ár hjá félaginu. Á síðasta tímabili varð Álaborg bikarmeistari og tapaði í úrslitum um meistaratitilinn fyrir GOG. Ljóst er að Álaborg ver ekki bikarmeistaratitilinn þar sem liðið tapaði fyrir GOG í átta liða úrslitum í gær, 41-39. Aron skoraði fjögur mörk fyrir Álaborg.

Aron verður kynntur til leiks hjá FH síðdegis í dag. Hann lék síðast með FH tímabilið 2008-09 en fór svo til Kiel. Hann hefur einnig leikið með Veszprém og Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×