Vísir greindi frá því í gær að Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar, hafi tjáð Árna Hilmarssyni, sem hefur verið úkraínskum fjölskyldum innan handar, að þær fengju ekki frekari matarúthlutanir á þessu ári.
„Ég varð auðvitað bara mjög reiður og svekktur. Á maður ekki að hjálpa öllum ef maður er í þessu á annað borð?“ sagði Árni í samtali við Vísi í gær.
„Upplýsingar til Árna á Selfossi, það er enginn í áskrift að mataraðstoð. Við erum að aðstoða hundruð Úkraníufjölskyldur. Árni er að aðstoða 8 fjölskyldur á Selfossi og víðar og hafði samband við okkur og óskaði eftir aðstoð fyrir þennan hóp sem við gátum ekki gert þar sem fullbókað var í umrædda úthlutun. Hann hafði fengið í tvígang risaúthlutanir fyrir hópinn,“ segir í færslu Fjölskylduhjálpar á Facebook.
Í samtali við Vísi staðfestir Ásgerður Jóna að hún hafi ritað færsluna en segist ekkert ætla að tjá sig um málið frekar.
Fjölskylduhjálp Íslands eru félagasamtök sem stofnuð voru árið 2003 af fimm konum, þar á meðal Ásgerði Jónu Flosadóttur, sem er formaður og stjórnarformaður félagsins.
„Fjölskylduhjálp Íslands starfar í þágu kvenna, karla og barna í neyð, óháð uppruna þeirra. Fjöldi fjölskyldna sem eru á skrá eru yfir 5000 talsins sem þurfa aðstoð í mismiklu mæli, en árið 2006 aðstoðaði Fjölskylduhjálpin yfir 15.000 manns. Starfsárið 2012 til 2013 úthutaði Fjölskylduhjálp Íslands yfir 30.000 mataraðstoðum. Þeir sem leita eftir aðstoð hjá Fjölskylduhjálp Íslands eru öryrkjar, atvinnulausir, einstæðar mæður og feður, eldri borgarar, lágtekjufólk og einstæðingar,“ segir á vef Fjölskylduhjálpar.