Innlent

Lög­reglan hafði af­skipti af fólki sem missti sig yfir víta­spyrnu­keppni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Brasilískur aðdáandi fylgist með leik Brasilíu og Króatíu. Úrslit leiksins réðust í vítaspyrnukeppni en ekki er vitað hvers lenskir íbúarnir sem kvartað var undan eru.
Brasilískur aðdáandi fylgist með leik Brasilíu og Króatíu. Úrslit leiksins réðust í vítaspyrnukeppni en ekki er vitað hvers lenskir íbúarnir sem kvartað var undan eru. Getty/Mateus Bonomi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að bregðast við útkalli um helgina vegna hávaða sem barst úr íbúð í fjölbýlishúsi. Í ljós kom að íbúar voru að fylgjast með HM í fótbolta og höfðu misst sig yfir vítaspyrnukeppni sem var í gangi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar. Ekki kemur fram um hvaða leik ræðir en í bæði leik Króatíu og Brasilíu annars vegar og leik Hollands og Argentínu hins vegar þurfti vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit. 

Í tilkynningunni segir að spennan hafi borið heimilisfólk ofurliði þegar leikar stóðu sem hæst svo að íbúð þeirra lék nánast á reiðiskjálfi með tilheyrandi hrópum og köllum. Nágrannar fólksins vissu ekki hvað væri að gerast og hringdu því á lögregluna.

Lögreglan brást fljótt við og fór á vettvang. Í færslunni segir að lögreglumenn hafi búist við því versta. Hins vegar þegar komið var á staðinn hafði ástandið róast, úrslitin verið ráðin og stuðningsmennirnir búnir að ná áttum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×