Fótbolti

Óttast að Liverpool hafi hreinlega ekki efni á Jude Bellingham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jude Bellingham fagnar sigri Englendinga í sextán liða úrslitunum.
Jude Bellingham fagnar sigri Englendinga í sextán liða úrslitunum. AP/Francisco Seco

Enski landsliðsmaðurinn Jude Bellingham hefur verið orðaður við Liverpool í langan tíma en nú er spurning hvort að kappinn sé hreinlega að spila of vel á heimsmeistaramótinu í Katar.

Bellingham átti enn einn stórleikinn þegar enska landsliðið sló Senegal út úr sextán liða úrslitunum.

Í öðru marki enska liðsins sýndi hann alla sína styrkleika. Hann vann boltann, keyrði fram hjá mönnum á styrk, hraða og tækni áður en hann sprengdi upp vörnina með hnitmiðaði sendingu.

Borussia Dortmund mun selja Bellingham í sumar og verðmiðinn hækkar með hverri frábærri frammistöðunni á HM.

Mark Ogden, reyndur blaðamaður á ESPN, ræddi framtíð Jude Bellingham á BBC Radio 5 Live og það var kannski ekki allt of jákvætt samtal fyrir stuðningsmenn Liverpool.

„Það eru mestar líkur á því að Liverpool kaupi Bellingham en verðmiðinn hans er alltaf að hækka. Í sambandi við Liverpool þá vitum við ekki hverjir verða eigendur félagsins. Eru núverandi eigendur tilbúnir að eyða þeim pening sem kostar að fá Bellingham,“ spurði Mark Ogden.

„Ég velti því fyrir mér hvort Liverpool, sem myndi passa mjög vel fyrir Bellingham, hafi hreinlega efni á honum. Heitasti bitinn á fótboltamarkaðnum er Kylian Mbappe en ég held að Jude Bellingham sé ekki langt á eftir,“ sagði Ogden.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×