Fótbolti

Sterling farinn heim frá Katar og óvíst hvort hann spili meira á HM

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Raheem Sterling og Bukayo Saka eftir fyrsta leik Englands á HM í Katar.
Raheem Sterling og Bukayo Saka eftir fyrsta leik Englands á HM í Katar. Getty/Eddie Keogh

Raheem Sterling var óvænt ekki í leikmannahópi Englands í 16-liða úrslitum HM í Katar í gær þegar England sló Senegal úr leik á öruggan hátt.

Þegar byrjunarliðið var gefið út kom á sama tíma út yfirlýsing frá enska knattspyrnusambandinu að Sterling myndi ekki taka þátt í leiknum vegna fjölskylduaðstæðna.

Eftir leik staðfesti svo Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, að Sterling væri á leið heim til Englands frá Katar.

„Ég varði töluverðum tíma með honum í morgun en þurfti svo að láta það í hendurnar á öðru fólki að aðstoða hann með sín mál. Stundum er fótbolti ekki það mikilvægasta og fjölskyldan á alltaf að vera í fyrsta sæti,“ sagði Southgate.

„Hann fer heim og tekst á við þetta og í kjölfarið sjáum við til hvað við gerum,“ sagði Southgate um hvort Sterling myndi koma aftur til móts við hópinn í Katar.

Ekki hefur verið gefið út hvað nákvæmlega kom upp í fjölskyldu Sterling en ensku slúðurblöðin voru fljót að fara af stað með sögur um innbrot á heimili Sterling í Lundúnum.

BBC tók undir þær sögur og greindi frá því seint í gærkvöldi að vopnaðir þjófar hafi brotist inn á heimili Sterling á meðan fjölskyldumeðlimir voru heima við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×