Greint var frá því á Innherja fyrr í vikunni að Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hafi sagt í umræðum á Peningamálafundi Viðskiptaráðs að vinnumarkaðurinn væri vandamálið í kjaraviðræðum. Kröfur verkalýðsfélaganna um krónutöluhækkanir og prósentutöluhækkanir væru óraunhæfar.
Ráðherrann sagði í samtali við fréttastofu í gær að þessi ummæli hafi verið sanngjörn.
„Já, mér finnst það , að það sé sanngjarnt. Af því það er enginn samhljómur hjá hinum ólíku stéttarfélögum á vinnumarkaði. Viðer um ekki með neitt samkomulag um það að kjaralotan eigi að hefjast á því að finna hvert svigrúmið er og láta lotuna svo snúast um það hvernig við spilum því svigrúmi út,“ sagði Bjarni að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.
Logi Einarsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir ummælin óheppileg.
„Og sýnir kannski að fjármálaráðherra virðist ekki hafa skilning á samhengi hlutanna. Þarna erum við að vinna með mjög flókið samspil, sem snýst um ríkisfjármál, rekstrarumhverfi fyrirtkæja og svo blákaldan veruleika almennings. Það er auðvitað ekkert hægt að slíta þetta úr samhengi eins og hann gerði,“ segir Logi.
Kjaraviðræður framundan séu greinilega flóknar en þar séu augljósar ástæður að baki.
„Við höfum verið að sjá fjárlög eftir fjárlög þar sem húsnæðismarkaðurinn er brotinn, heilbrigðiskerfið undirfjármagnað og velferðarkerfið veikt. Í þeim aðstæðum skilur maður raunveruleika launafólks en það held ég að fjármálaráðherra geri því miður ekki.“
Samkomulag verði að nást milli atvinnulífs, verkalýðs og ríkis og allir þurfi að gæta sín í samskiptum í þeim viðræðum.
„Á sama tíma og forsætisráðherra kallar aðila til sín og virðist ætla að slökkva elda kemur hann með bensínbrúsann,“ segir Logi.