Á fundinum lýsti Bjarni yfir stuðningi við vaxtaákvörðun Seðlabankans samkvæmt grein Innherja í gær. Bjarni hefði sagt vinnumarkaðinn vera „raunverulega vandamálið“ vegna þess hversu lítill samhljómur væri í kröfugerð verkalýðsfélaganna. Krafist væri bæði krónutöluhækkana og að miðað yrði við stöðu verðbólgunnar núna.
„Við sem þjóð værum föst í að biðja alltaf um meira og meira en þjóðarbúið stæði undir hverju sinni."
Undanfarnar vikur hafa samningsaðilar rætt um gerð skammtímasamnings til 14 mánaða. Samkvæmt heimildum fréttastofu buðu Samtök atvinnulífsins upp á að laun hækkuðu að lágmarki um 17 þúsund krónur á samningstímanum og aldrei meira en um 30 þúsund. Hagvaxtarauki sem koma á til greiðslu í maí á næsta ári samkvæmt fyrri samningum reiknaðist inn í þá tölu.

Samningafundi hjá ríkissáttasemjara lauk upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi og hefur nýr fundur ekki verið boðaður fyrr en á þriðjudag.
Samninganefndir VR, Starfsgreinasambandsins og Landssambands verslunarmanna funda hver um sig núna klukkan níu til að ráða ráðum sínum eftir að VR sleit sig frá viðræðunum í gærkveldi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðaði forystu aðila vinnumarkaðarins til fundar með stuttum fyrirvara í gærmorgun eftir að upp úr sauð hjá samningsaðilum vegna 0,25 prósentustiga vaxtahækkun seðlabankans. Eftir þann fund voru menn heldur bjartsýnni enda hefði forsætisráðherra lýst vilja stjórnvalda til að greiða fyrir gerð kjarasamninga.
Eftir það lýsti fjármálaráðherra stöðunni hins vegar eins og að framan greinir á fundi Viðskiptaráðs sem samkvæmt heimildum fréttastofu var eins og að skvett hefði verið olíu á eld. Þar sagði hann einnig að kröfur verkalýðsfélaganna væru óraunhæfar.
„Við þurfum aðeins að vakna,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í umræðum á Peningamálafundi Viðskiptaráðs – undir yfirskriftinni: Hver ber ábyrgð á verðbólgunni? – og nefndi að þótt vaxtahækkun Seðlabankans í gær hafi „verið köld vatnsgusa“fyrir suma þá kunni hún að hafa sent nauðsynleg skilaboð til aðila vinnumarkaðarins," segir á Innherja í gær.