Hjónin Anton og Viktoria Garbar ráku ferðaskrifstofu í heimalandi sínu Rússlandi í nokkur ár og ferðuðust meðal annars með hópa fólks til Íslands. Eftir að stríðið braust út í Úkraínu flúðu hjónin til Íslands.
„Við neyddumst til að yfirgefa Rússland vegna mótmæla okkar gegn hernaði og ríkisstjórninni, gegn stjórn Pútíns og gegn öllu því sem landið okkar gerir í Úkraínu,“ segir Anton.
Hjónin hafa verið á Íslandi í sjö mánuði og vegna vinnu sinnar hér undanfarin ár og standandi atvinnutilboða töldu þau sig hafa næg tengsl til landsins til að uppfylla skilyrði Útlendingastofnunar um sérstök tengsl.
„Við töldum okkur hafa tengsl við Ísland eins og kveðið er á um í lögum um sérstök tengsl. Við héldum að við hefðum þau. Við eigum marga vini sem skrifuðu meðmælabréf um okkur til Útlendingastofnunar,“ segir Anton.
Vinkona þeirra hefur útvegað hjónunum tímabundið húsnæði á Ítalíu en þau segjast hrædd.
„Í byrjun þessa árs, í febrúar, neyddumst við til að yfirgefa eitt heimili. Eftir þessa sjö mánuði var Ísland orðið okkar annað heimili og nú neyðumst við til að yfirgefa annað heimili okkar,“ segir Anton.
„Það er hræðilegt, það er mjög ógnvekjandi. Ég veit ekki hvað við gerum þar.“
Viktoria tekur undir með eiginmanni sínum.
„Við kunnum ekki ítölsku. Af hverju var ég að læra íslensku? En þetta reddast.“