Fótbolti

Líkti Vöndu Sigur­geirs­dóttur við Sól­veigu Önnu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vanda Sigurgeirsdóttir og Sólveig Anna Jónsdóttir.
Vanda Sigurgeirsdóttir og Sólveig Anna Jónsdóttir. Vísir/Vilhelm

Knattspyrnusamband Íslands og málefni sambandsins voru meðal umræðuefna í Íþróttavikunni með Benna Bó á Hringbraut á föstudaginn var. Þar var Vöndu Sigurgeirsdóttur, formanni KSÍ, líkt við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar.

Nýjasti vindurinn sem blæs um höfuðstöðvar KSÍ er í kringum treyju sem Aron Einar Gunnarsson fékk eftir að leika sinn 100. A-landsleik. Dagný Brynjarsdóttir birti færslu á Instagram-síðu sinni þar sem hún benti á að hvorki hún né Glódís Perla Viggósdóttir hefðu fengið samskonar gjöf.

Í kjölfarið benti landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi Guðbjörg Gunnarsdóttir á að hún hefði aldrei fengið styttu sem leikmenn eiga að fá fyrir að leika 50 A-landsleiki. Margrét Lára Viðarsdóttir, markahæsti leikmaður kvennalandsliðsins frá upphafi, benti einnig á hvernig hún fékk engar þakkir eftir farsælan landsliðsferil.

Alltaf slökkt á símanum

Benedikt Bóas Hinriksson heldur úti viðtalsþættinum Íþróttavikan með Benna Bó. Í síðasta þætti voru þeir Hörður Snævar Jónsson, yfirmaður íþróttadeildarinnar hjá Torgi, og Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans hjá Símanum.

„Það hefur verið svona, undanfarna mánuði. Þetta var eitt­hvað sem pirraði mann í formannstíð Guðna Bergssonar, það var alltaf slökkt á símanum þegar eitt­hvað kom upp á. Ég átti alls ekki von á því að Vanda Sigurgeirsdóttir myndi fara í felur þegar eitthvað kæmi upp á, þegar hún tók við formannsembættinu,“ sagði Hörður Snævar.

„Þessi vinnubrögð minna mig satt best að segja á Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar,“ bætti hann við að endingu.

Hér má sjá síðasta þátt Íþróttavikunnar með Benna Bó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×