Æfingarnar hafa meðal annars farið fram hér í Hofi og leikararnir eru að sjálfsögðu mjög spenntir fyrir sýningunum en í þeim skarast skáldskapur, ópera, söngleikur og gamanleikhús á stórskemmtilegan hátt. Verkið er stutt og laggott, eða um 30 mín að lengd, og efniviður sóttur íslenska jólasöguarfinn.
Höfundur og tónskáld er Þórunn Guðmundsdóttir og leikstjórn annast Jenný Lára Arnórsdóttir og búninga Rósa Ásgeirsdóttir. Flytjendur eru Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari og söngkonurnar Björk Níelsdóttir sópran og Erla Dóra Vogler mezzósópran.
“Það sem er rosalega skemmtilegt við þetta er að það er harmonikkuundirleikur og engin önnur hljóðfæri,” segir Jenný Lára.
Og hvaða nikkuleikari skyldi það vera?
“Það er jólakötturinn, jólakötturinn spilar á harmonikku, þannig að þetta er algjört draumahlutverk enda hefur það verið draumur minn frá því að ég var krakki að annað hvort að leika Mikka ref eða jólaköttinn,” segir Jón Þorsteinn, harmoníkuleikari.

En er einhver hætta á að börnin verði hrædd á sýningunum ?
“Vonandi, kannski smá, í smástund og svo er þetta bara búið og svo er þetta bara fyndið. Já, já, þetta er aðallega fyndið en ég ætla allavega að reyna að hræða einn eða tvo,” segir Jón Þorsteinn og glottir út í annað.
Verkefnið er styrkt af Tónskáldasjóði, Tónlistarsjóði, SSNE, Menningarsjóði Akureyrar og Samfélagssjóði Norðurorku. Verkefnið er unnið í samstarfi við List fyrir alla: https://listfyriralla.is/event/aevintyri-a-adventunni/