Hér fyrir neðan má sjá myndband af aðgerðum slökkviliðsins í dag.
Mariusz Cezary Michalek, verkstjóri hjá Terra á Akranesi, segir að starfsmenn frá Málmaendurvinnslu hafi verið að vinna í að brjóta niður bílhræ á gámasvæði Nova Terra. Fjarlægja kúta, batterí, olíu og eldsneyti.

Kviknað hafi í einu bílhræinu og ekki náðst að slökkva eldinn í tæka tíð. Kviknað hafi í haug af bílhræjum sem gróft metið telji líklega um hundrað bíla.
Slökkviliðsmenn séu á svæðinu að gera hvað þeir geti til að slökkva eldinn. Varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir enga beiðni hafa borist um aðstoð vegna eldsins.
Tilkynning frá Lögreglunni á Vesturlandi
Eldur kviknaði í ónýtum bifreiðum á sorphirðusvæði Terra við Akranes fyrr í dag. Mikinn reyk leggur frá svæðinu og er íbúum á Akranesi og í nærliggjandi sveitum ráðlagt að loka gluggum á meðan eldurinn geysar. Hægt gengur að ráða niðurlögum eldsins og ef vindátt breytist kann reyk að leggja yfir bæinn.
Högni Auðunsson, framkvæmdastjóri Málma, var á leiðinni upp á Akranes þegar blaðamaður náði af honum tali á fjórða tímanum. Hann sagðist vilja hitta sitt fólk á staðnum og ræða við það áður en hann svaraði blaðamönnum, til að hafa allt sitt á hreinu í svörum.
Að neðan má sjá fjölda mynda af eldsvoðanum.






