Reikna má með lítilsháttar vætu suðaustantil, og einnig vestast á landinu fram eftir morgni. Það verður yfirleitt þurrt í öðrum landshlutum. Spáð er að hiti verði víða á bilinu eitt til sjö stig yfir daginn.
„Gengur í austan og norðaustan 8-15 m/s á morgun, en 13-18 syðst. Það verður víða dálítil rigning, en þurrt að kalla á Norður- og Norðvesturlandi. Hiti 2 til 9 stig, hlýjast suðvestantil. Síðdegis bætir svo í úrkomu á Suðausturlandi og Austfjörðum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Austan 8-15 m/s, en 13-18 syðst á landinu. Rigning með köflum, en úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti 2 til 9 stig, hlýjast sunnantil.
Á miðvikudag: Norðaustan og austan 5-13, en heldur hvassara við suðausturströndina. Lítilsháttar rigning, en styttir upp um landið vestanvert. Hiti 2 til 7 stig.
Á fimmtudag: Norðan 5-13. Skýjað á norðanverðu landinu og stöku skúrir eða slydduél, en bjart með köflum sunnantil. Hiti breytist lítið.
Á föstudag: Vestan- og norðvestanátt, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 2 til 7 stig, en í kringum frostmark norðaustanlands.
Á laugardag: Suðvestanátt og dálítil væta, en bjartviðri um landið austanvert. Hlýnar í veðri.
Á sunnudag: Suðvestanátt og rigning eða skúrir, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti 4 til 10 stig.