Haustið 2020 tók Orkuveita Reykjavíkur ákvörðun um að Árbæjarlón yrði tæmt til frambúðar. Með því var ákveðið að Elliðaár fengju að renna nánast óheftar í sínum upprunalegu farvegum undir Árbæjarstíflu. Árbæjarlón varð til við byggingu rafstöðva í Elliðám fyrir um hundrað árum.
Framkvæmdin var hins vegar ekki óumdeild. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í nóvember 2020 var sagt frá að margir íbúar Árbæjarhverfisins væri miður sýn yfir því að ákveðið hafi verið að tæma lónið til frambúðar. Ásýnd svæðisins væri horfin.
Fór það svo að íbúi í Árbænum kærði tæminguna til skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar. Þar var þess krafist að Orkuveitunni yrði gert að mynda lónið að nýju. Þeirri kæru var hafnað. Íbúinn kærði höfnunina á kærunni til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Nefndin komst að niðurstöðu síðastliðinn fimmtudag.
Augljóst að framkvæmdaleyfi þyrfti ef byggja ætti lónið nú
Benti kærandinn til að mynda á að enginn vafi væri á því að ef byggja ætti lónið á umræddu svæði í dag væri það háð byggingar- eða framkvæmdaleyfi. Einsýnt væri að það sama gilti um ef fjarlægja ætti lónið.
Um væri að ræða lón sem hafi verið andlit Elliðarárdals í að minnsta kosti eina öld. Tæming lónsins hafi haft veruleg áhrif á nærumhverfi tugþúsunda íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Reykjavíkurborg taldi hins vegar að tæming lónsins væri ekki aðgerð sem krefðist framkvæmdaleyfis.
Krafa um að fylla lónið að nýju ekki til umfjöllunar nefndarinnar
Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að nefndin geti ekki tekið til umfjöllunar kröfu íbúans um að Orkuveitunni yrði gert að fylla lónið að nýju. Hins vegar tók nefndin til skoðunar hvort að umrædd aðgerð teldist meiri háttar framkvæmd og þar af leiðandi háð framkvæmdaleyfi.

Vísað er í skipulagslög og ákvæði í þeim um að afla skuli framkvæmdaleyfis vegna meiriháttar framkvæmda sem hafi áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess.
Segir nefndin að ljóst verði að telja að tæming lónsins teljist sem framkvæmd sem hafi áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess. Allar slíkar framkvæmdir krefjist framkvæmdaleyfis.
Telur nefndin því að skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar hafi borið að stöðva tæmingu lónsins og leita staðfestingar sveitarstjórnar á því að framkvæmdaleyfi væri fyrir hendi.
Var ákvörðun skipulagsfulltrúans um að vísa frá kæru íbúans því felld úr gildi.