Handbolti

Haukur Þrastar og félagar fyrstir inn í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Þrastarson í leik með íslenska landsliðinu.
Haukur Þrastarson í leik með íslenska landsliðinu. Getty/Uwe Anspach

Haukur Þrastarson og félagar í pólska liðinu KS Vive Handball Kielce urðu í dag fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum á heimsmeistarakeppni félagsliða í Sádí Arabíu.

Kielce vann þá níu marka sigur á brasilíska félaginu Handebol Taubaté, 39-30, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 18-16.

Bæði liðin höfðu unnið sinn leik á móti Al Kuwait og þetta var því hreinn úrslitaleik um efsta sætið í riðlinum sem var jafnframt eina sætið sem gaf þátttökurétt í undanúrslitum keppninnar.

Haukur spilaði í 21 mínútu í leiknum og skoraði eitt mark. Hann klikkaði á báðum langskotum sínum, annað fór í stöng, en skoraði síðan með gegnumbroti.

Alex Dujshebaev og Dylan Nahi voru markahæsti hjá Kielce með sex mörk hvor en þeir Szymon Sicko og Arkadiusz Moryto skoruðu báðir fimm mörk.

Adreas Wolff var frábær í markinu en hann varði 17 skot þar af þrjú vítaköst frá Brössunum.

Kielce mætir sigurvegara D-riðils í undanúrslitunum sem verður væntanlega Barcelona frá Spáni.

Íslendingaliðið SC Magdeburg getur einnig tryggt sig inn í undanúrslitin í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×