Sport

Arnór Ingvi skoraði gegn Helsingborg

Atli Arason skrifar
Arnór Ingvi var á skotskónum í kvöld.
Arnór Ingvi var á skotskónum í kvöld. Twitter@ifknorrkoping

Arnór Ingvi Traustason, leikmaður Norrköping, skoraði eitt mark í 2-0 sigri liðsins á Helsingborg í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður Elfsborg, hélt hreinu á móti Varberg á meðan Valgeir Lunddal og félagar í Häcken eru komnir með níu fingur á sænska meistaratitilinn eftir sigur á AIK.

Norrköping 2-0 Helsingborg

Arnór var í byrjunarliði Norrköping og lék allan leikinn. Markið skoraði Arnór strax á 18. mínútu áður en Jacob Ortmark tryggði Norrköping sigur á 72. mínútu. Ari Freyr Skúlason var einnig í byrjunarliði Norrköping en fór af velli á 90. mínútu leiksins.

Andri Lucas Guðjohnsen og Arnór Sigurðarson sátu allan leikinn á varamannabekk Norrköping.

Varberg 0-3 Elfsborg

Hákon Rafn Valdimarsson varði mark Elfsborg og hélt hreinu í þriggja marka sigri Elfsborg á útivelli gegn Varberg. Sveinn Aron Guðjohnsen byrjaði einnig hjá Elfsborg og lék í 82 mínútur áður en honum var skipt af velli.

Jeppe Okkels, Michael Baidoo og Oscar Aga skoruðu mörk Eflsborg í leiknum.

AIK 1-2 Häcken

Valgeir Lunddal Friðriksson, leikmaður Häcken, spilaði allan leikinn fyrir Häcken í eins marks sigri á AIK. Ibrahim Sadiq og Alexander Jeremejeff skoruðu mörk Häcken áður en John Guidetti minnkaði muninn fyrir AIK með marki úr vítaspyrnu á 91. mínútu.

Häcken er á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar með 57 stig þegar liðið á einungis þrjá leiki eftir af deildarkeppninni. Häcken er með átta stiga forskot á Hammerby en Hammerby á einn leik til góða á Häcken. Hákon Rafn, Sveinn Aron og félagar í Elfsborg eru í 7. sæti með 40 stig eftir 27 leiki á meðan Íslendingalið Norrköping er í 11. sæti með 32 stig eftir jafn marga leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×