Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þar segir að hægviðri og bjart veður verði í dag um allt land, en þó skýjað norðan heiða rétt í fyrstu. Hiti verður á bilinu eitt til átta stig og verður hlýjast syðst.
„Milt loft úr vestri kemur með suðvestanátt á morgun og á miðvikudag. Skýjað verður vestanlands, þurrt að kalla á þriðjudag en smáskúrir á miðvikudag. Bjart veður fyrir austan báða dagana.
Útlit fyrir hæglætisveður seinnihluta vikunnar og um helgina, þurrt að mestu en kólnandi.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag og miðvikudag: Suðvestanátt, 8-15 m/s norðvestantil, en annars hægari. Skýjað vestanlands, en bjart austantil. Hiti 3 til 8 stig.
Á fimmtudag: Austanátt, strekkingur syðst en annars hægari. Skýjað en úrkomulítið sunnanlands, en bjart norðantil. Heldur kólnandi og vægt frost í innsveitum norðaustanlands.
Á föstudag: Norðaustanátt, skýjað og stöku él eða skúrir norðan- og austanlands, en allvíða bjartviðri syðra. Hiti 0 til 7 stig, hlýjast syðst, en kaldast í innsveitum norðaustanlands.
Á laugardag (fyrsti vetrardagur) og sunnudag: Hæg breytileg átt, bjart með köflum norðaustanlands, en annars skýjað og yfirleitt þurrt. Hiti breytist lítið.