Innlent

Hjá einum af tíu fara meira en 75 prósent tekna í húsnæðiskostnað

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Vísir/Vilhelm

Fyrstu niðurstöður könnunar sem Félagsvísindastofnun vinnur að fyrir Öryrkjabandalag Íslands benda til þess að tíundi hver öryrki á Íslandi verji meira en 75 prósentum af ráðstöfunartekjum sínum í rekstur húsnæðis.

Frá þessu greinir Fréttablaðið en þar segir að í flestum tilvikum sé um leigu að ræða. 

Greiðslubyrði fatlaðs fólks vegna leigukostnaðar sé vel yfir meðallagi í landinu samkvæmt könnun Húsnæðis og mannvirkjastofnunar en um þriðjungur öryrkja greiðir meira en 50 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segist hafa miklar áhyggjur af þróuninni en til félagsins leiti í auknum mæli fólk sem á erfitt að ná endum saman.

Húsnæðiskostnaður, matur, lyf og heilbrigðisþjónsta hafi hækkað en framfærsla fólks ekki batnað í takt við verðhækkanir á nauðsynjum.

Þuríður segir fötluðu fólki gert að lifa á um fjórðungi lægri upphæð en sem nemur lágmarkslaunum og viðvarandi verðbólga auki enn á vandann. 

„Og einna harðast bitnar þetta á börnum öryrkja sem geta vart eða ekki tekið þátt í samfélaginu. Langverst standa einstæðir fatlaðir foreldrar og börn þeirra.“

Samkvæmt Umboðsmanni skuldara eru fatlaðir nær helmingur þeirra sem til hans leita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×