Innlent

Bryn­dís býður sig fram á lands­fundi

Árni Sæberg skrifar
Bryndís Haraldsdóttir vill verða ritari Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsdóttir vill verða ritari Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfsstæðisflokksins, hefur tilkynnt að hún gefi kost á sér í embætti ritara flokksins á landsfundi sem haldinn verður 4. nóvember næstkomandi.

„Ég gef kost á mér til embættis ritara Sjálfstæðisflokksins og fer kosning fram á Landsfundi flokksins þann 4. nóvember. Ég tel að reynsla mín af vettvangi sveitastjórna og þings nýtist vel í þessu mikilvæga embætti,“ segir Bryndís í framboðstilkynningu á Facebook.

Bryndís hefur setið á þingi síðan 2016, er formaður allsherjar og menntamálanefndar og situr í fjárlaganefnd. Áður hefur hún setið í efnahags- og viðskiptanefnd, utanríkismálanefnd og verið varaforseti þings. „Í þingstörfunum hefur dýrmæt reynsla mín úr sveitarstjórn nýst vel,“ segir Bryndís.

Staða ritara Sjálfstæðisflokksins hefur verið laus frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð. Jón Gunnarsson innanríkisráðherra gengdi stöðunni áður en hann tók sæti í ríkisstjórn. Samkvæmt reglum flokksins má ritari ekki eiga sæti í ríkisstjórn.

Bryndís er fyrst til að tilkynna um framboð til embættis ritara en því hefur verið velt upp að konur muni slást um embættið í nóvember.

Þegar ljóst var að ritarastaðan væri laus voru þær Áslaug Hulda Jónsdóttir fyrrverandi bæjarfulltrúi í Garðabæ og formaður bæjarráðs, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri, þingmennirnir Diljá Mist Einarsdóttir og Berglind Ósk Guðmundsdóttir auk Hildar Björnsdóttur borgarfulltrúa nefndar á nafn sem mögulegir frambjóðendur. Síðan þá hefur þó mikið vatn runnið til sjávar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×