Framtíð Alþýðusambandsins er óljós um þessar mundir eftir gríðarlega stormasamt tímabil sem endaði með afsögn forsetans Drífu Snædal.
Stærsta aðildarfélag sambandsins er VR - sem íhugar nú hvort ASÍ sé barn síns tíma, eins og formaðurinn hefur oft velt upp.
„Það sem að við höfum verið að ræða í sjálfu sér innan stjórnar VR er bara fyrst og fremst hver aðkoma okkar að Alþýðusambandinu á að vera,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson.
Skorað hefur verið á Ragnar að bjóða sig fram til forseta ASÍ. Því stendur VR frammi fyrir tveimur meginvalkostum - draga sig út úr sambandinu eða sækjast forystu innan þess.
Stjórnin kemur saman til fundar á morgun en Ragnar segist einnig eiga í virku samtali við forystumenn og félaga annarra aðildarfélaga um framtíðina.
„Um það hvort að við eigum að rífa þetta eitthvað upp og gera þetta að því afli sem að því var upprunalega ætlað að vera. Hverju það skilar kemur í ljós mjög fljótlega,“ segir Ragnar Þór.
Hann segir þetta lykilspurningu. Ef félögin séu tilbúin að fara í alvöru umbótastarf innan ASÍ og gera það að sterku sameinuðu afli geti hann hugsað sér að gefa kost á sér í embættið.
„Ef að það er ekki til staðar, hugarfarið í að gera þetta, þá hef ég ekki mikinn áhuga á að eyða miklum tíma í Alþýðusambandið,“ segir Ragnar Þór.
„En ef það er vilji til þess, raunverulegur vilji til að rífa þetta upp og gera eitthvað úr þessu, þá get ég alveg hugsað mér að leiða það verkefni en það kemur í ljós mjög fljótlega.“
Hann hefur raunar sett sér tímamörk. Á fimmtudaginn verður hann búinn að taka endanlega ákvörðun um hvort hann ætli fram til forseta eða hvort VR fari aðrar leiðir að sínum markmiðum.