Þetta kom fram í máli þeirra tveggja í beinni útsendingu í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld, þar sem þau voru spurð álits á fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem kynnt var í fjármálaráðuneytinu í dag.
Eins og við má búast eru skiptar skoðanir á áherslum sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu. Jóhann Páll gagnrýnir að ekki sé gripið til aðhaldsaðgerða sem leggi áhersla á að vernda þau sem mest finna fyrir verðbólgunni.
Þetta eru lágtekju- og millitekjufólk sem er að horfa upp á greiðslubyrði vegna lána, greiðslubyrði vegna húsnæðis og matarkostnað rjúka upp úr öllu valdi, sagði Jóhann Páll.
Ríkisstjórn hafi hans mati ákveðið að láta þessa hópa taka skellinn í baráttunni gegn verðbólgunni.
„Það sem gerist í raun með þessu fjárlagafrumvarpi er að ríkisstjórnin er búin að ákveða að láta þessi sömu hópa líka taka á sig skellinn og bera herkostnaðinn ef svo má segja af stríðinu við verðbólguna og þensluna. Þetta segi ég vegna þess að þær aðhaldsaðgerðir sem ráðist er í þarna, þar erum við ekki að sjá hvalrekaskatta af einhverju tagi, hærri bankaskatt eða veiðigjöld, hærri fjármagnstekjuskatt. Ekkert slíkt heldur á að hækka krónutölugjöld. Flata neysluskatta sem koma harðast niður á fólki neðar í tekjustiganum,“ sagði Jóhann Páll.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagðist ekki geta bætt miklu við þetta svar Jóhanns Páls.
„Nema að segja að þetta lýsir náttúrulega grímulausri sérhagsmunagæslu sem að þessi ríkisstjórn er búinn að starfa eftir, alltaf,“ sagði hún.

Frumvarpið verður lagt fram á Alþingi á morgun. Þingveturinn hefst einnig formlega á morgun þegar Alþingi verður sett. Inga segir að stjórnarandstaðan muni veita ríkisstjórnnii ríkt aðhald í vetur.
„Ég held að þau séu aðeins að skjóta sig í báðar fætur akkúrat núna en við hlökkum til, við Jóhann Páll og allir hinir stjórnarandstöðuþingmennirnir að fá að koma og ræða þetta frumvarp.“