Veður

Milt í veðri og hiti að sau­tján stigum

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður á bilinu níu til sautján stig í dag þar sem hlýjast verður norðaustanlands.
Hiti verður á bilinu níu til sautján stig í dag þar sem hlýjast verður norðaustanlands. Veðurstofan

Veðurstofan spáir fremur rólegu veðri framundan og þar sem reikna má með sólarglennum í flestum landshlutum.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það verði suðvestlæg átt, fimm til þrettán metrar á sekúndu,og milt í veðri í dag.

„Skýjað að mestu og úrkomulítið, en birtir til fyrir norðan og austan og hiti að 17 stigum yfir hádaginn, hlýjast norðaustanlands.

Snýst í norðlæga átt í nótt og kólnar heldur í veðri, einkum fyrir norðan. Dálítil væta norðanlands á morgun, en léttir heldur til fyrir sunnan.“

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Norðlæg átt, 5-10 m/s. Dálítil væta á norðanverðu landinu og hiti 3 til 8 stig, en þurrt og bjart að mestu fyrir sunnan og hiti að 15 stigum.

Á miðvikudag: Norðvestlæg átt, 3-8 m/s og skýjað með köflum eða bjartviðri, en 8-13 og lítilsháttar væta við austurströndina fram eftir degi. Hiti 4 til 12 stig að deginum, hlýjast sunnanlands.

Á fimmtudag: Fremur hæg suðvestlæg eða breytileg átt. Skýjað og þurrt að mestu vestantil á landinu, en víða léttskýjað í öðrum landshlutum. Hiti 5 til 12 stig.

Á föstudag: Fremur hæg vestlæg eða breytileg átt. Skýjað með köflum en úrkomulítið. Hiti breytist lítið.

Á laugardag og sunnudag: Útlit fyrir sunnan og suðaustanátt með rigningu og heldur hlýnandi veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×