Veður

Sendir úr­komu­svæði yfir stóran hluta landsins í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Reikna má með hita á bilinu tíu til fimmtán stig suðvestanlands, en hlýjast á landinu verður á Norðausturlandi.
Reikna má með hita á bilinu tíu til fimmtán stig suðvestanlands, en hlýjast á landinu verður á Norðausturlandi. Vísir/Vilhelm

Lægð er nú stödd vestur af Reykjanesskaga og sendir hún úrkomusvæði sitt yfir stóran hluta landsins í dag.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að útlit sé fyrir suðaustan fimm til þrettán metrum á sekúndu með rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu og verður hiti tíu til fimmtán stig á þeim slóðum.

„Um landið norðaustanvert verður besta veðrið í dag, þar verður þurrt og bjart og hiti allt að 20 stig.

Á morgun er spáð austlægri átt, víða á bilinu 5-10 m/s. Lengst af rigning á sunnanverðu landinu, en skýjað og úrkomulítið norðantil. Hitatölurnar þokast niðurávið.

Á sunnudag snýst síðan í norðaustan 5-10. Skýjað og dálítil væta norðan- og austanlands og kólnar á þeim slóðum. Birtir upp sunnan heiða og fallegur dagur í vændum þar og hiti allt að 17-18 stig þar sem best lætur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Austlæg átt 5-10 m/s. Rigning á sunnanverðu landinu, en úrkomulítið norðantil. Hiti 9 til 16 stig.

Á sunnudag: Norðaustan 5-10. Skýjað norðan og austanlands og dálítil væta fram eftir degi, hiti 7 til 12 stig. Bjartviðri sunnan heiða með hita að 17 stigum.

Á mánudag: Suðvestan 5-10, skýjað og þurrt að kalla, en bjartviðri austantil á landinu. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast austanlands.

Á þriðjudag: Vestlæg eða breytileg átt 3-8. Skýjað að mestu, en yfirleitt þurrt. Hiti 7 til 12 stig. Léttskýjað um landið suðaustanvert og hiti þar að 17 stigum.

Á miðvikudag: Suðvestan- og vestanátt og víða dálítil væta, en þurrt á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast suðaustantil.

Á fimmtudag: Norðlæg átt með vætu fyrir norðan, en þurrt syðra. Kólnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×