Fótbolti

Fyrrum leikmaður Liverpool gerir Dagnýju að fyrirliða

Valur Páll Eiríksson skrifar
Dagný er nýr fyrirliði West Ham.
Dagný er nýr fyrirliði West Ham. Julian Finney/Getty Images

Dagný Brynjarsdóttir er tekin við fyrirliðabandinu hjá West Ham United á Englandi. Enska ofurdeildin fer af stað í næsta mánuði.

Fram undan er annað heila tímabil Dagnýjar með West Ham en hún gekk í raðir félagsins frá Selfossi í janúar 2021, á miðri þarsíðustu leiktíð. Draumur var þá að rætast en Dagný hefur stutt West Ham frá blautu barnsbeini.

Hún hefur verið fastamaður í liðinu frá komu sinni en hún skoraði fjögur mörk í tuttugu leikjum í ofurdeildinni á síðustu leiktíð. West Ham lenti þar í sjötta sæti deildarinnar, en félagið hefur aldrei lent ofar.

Að útnefna Dagnýju sem fyrirliða er á meðal fyrstu verka nýs þjálfara liðsins, Paul Konchesky. Hann var aðstoðarþjálfari liðsins á síðustu leiktíð en tók við í sumar af hinum nýsjálenska Olli Harder, sem hætti í sumar eftir tveggja ára starf.

Konchesky spilaði á sínum tíma 347 leiki í ensku úrvalsdeildinni með Charlton, Tottenham, West Ham, Fulham, Liverpool og Leicester City.

Keppni í ensku ofurdeildinni hefst 9. september, eftir komandi landsleikjahlé. Dagný er að venju í landsliðshópi Íslands fyrir komandi verkefni þar sem liðið mætir Hvíta-Rússlandi og Hollandi í leikjum sem skera úr um hvort Ísland fari beint á HM 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×