Bjarni segir í viðtali við Morgunblaðið að vel sé unnt að ná farsælum og góðum samningum á vinnumarkaði í haust, sem verji fengna kaupmáttaraukningu.
Hins vegar sé óraunhæft að vænta mikillar kaupmáttaaukningar ár eftir ár um alla framtíð.
„Við þurfum að undirgangast viðurkennd lögmál hagfræðinnar og þessi viðleitni, sem var unnin á vegum Þjóðhagsráðs, til þess að kortleggja stöðuna og komast að niðurstöðu um það hversu mikið svigrúmið [fyrir samninga] væri, hún var mjög virðingarverð. Það verður að vera hægt að leggja fram staðreyndir án þess að það sé hrópað að það endi allt í tætaranum,“ segir Bjarni.
Hann ítrekar að það séu aðilar vinnumarkaðarins sem semja sín á milli en stjórnvöld vilji hlusta á vinnumarkaðinn og leggja spilin á borðið til að auka traust.
Ráðherra segir hróp og köll að seðlabankastjóra eða öðrum óverðskulduð en þau orð seðlabankastjóra að óhóflegar launahækkanir muni leiða til vaxtahækkana gætu hafa komið frá hvaða seðlabankastjóra sem er í heiminum.
„Þetta eru bara almenn sannindi og menn ættu ekki þurfa að rífast um þetta.“