„Það er sturlað, það er rosa góð tilfinning,“ segir Friðrik aðspurður hvernig sé að vera mættur í Gleðigönguna. Hann er ekki gestur hvert einasta ár þar sem hann er oftar en ekki á annarri hátíð þessa helgi. „Ég er auðvitað alltaf á Fiskideginum á þessum degi en þetta eru fín skipti,“ segir Friðrik en Fiskidagurinn mikli var ekki haldinn hátíðlegur í ár vegna kórónuveirunnar.
Siggi tekur undir orð Friðriks og segir það að taka þátt í göngunni vera bestu tilfinningu í heimi.
„Það skiptir svo miklu máli, fyrir okkur og samfélagið að koma saman. Þetta er gleðiganga og líka kröfuganga. Við erum að minna á okkur og minna á réttindi hinsegin fólks,“ segir Siggi.
Þeir segja gönguna vera afar mikilvæga, sérstaklega þar sem bakslag hefur orðið í umræðu um réttindi hinsegin fólks.
„Það snertir mann bara út af samfélaginu okkar og við þurfum að standa saman. Það eru breyttir tímar. Sem hommi, það er búið að gerast ýmislegt í okkar málum, en nú þurfum við að styðja við systkini okkar og bræður,“ segir Friðrik.