Óvissustigi Almannavarna var lýst yfir vegna jarðskjálftahrinunnar við Fagradalsfjall sem hófst um hádegisbil í gær. Kröftugasti skjálftinn til þessa reið yfir rétt fyrir klukkan 17 í gær og mældist 4,4 að stærð.
Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur sagði í samtali við fréttastofu að hrinan væri ívið kröftugri en sú sem var um áramótin. Jarðskjálftarnir hafa verið að mælast á um 5-7 kílómetra dýpi og talið er að kvika geti verið á sama dýpi og þar sem skjálftarnir hafa verið mælast.
Engin merki um gosóróa hafa sést á mælum Veðurstofunnar né önnur merki um að eldgos sé hafið eða yfirvofandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni. Flugveðurkóði hefur þó verið færður yfir á gult viðbúnaðarstig og grannt er fylgst með stöðunni.
