Mikil óvissa er fyrir komandi kjaraviðræður sem hefjast í haust. Verðbólgan hefur aukist töluvert og stendur nú í tæplega tíu prósentum en samhliða þeirri þróun hefur kaupmáttur launa rýrnað. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir þróunina í takt við það sem verkalýðshreyfingin varaði við.
„Við bentum á þetta fyrir ári síðan og höfum verið að benda á þetta mjög reglulega og það hefur síðan raungerst. Þannig að staðan sem slík kemur ekki á óvart, en er að mörgu leyti hrikaleg svona inn í komandi kjaraviðræður,“ segir Ragnar.
Mörg fyrirtæki hafa þó skilað miklum hagnaði og arðsemiskröfur þeirra aukist. Þá hafa viðskiptabankarnir hagnast töluvert það sem af er ári, Arion banki hefur til að mynda hagnast um ríflega 15,5 milljarð og Íslandsbanki um rúmlega 11 milljarða.
„Þetta er ákveðin mótsögn, það er verið að krefja verkalýðshreyfinguna og vinnandi fólk um að sýna hófsemi og ábyrgð þegar kemur að næstu kjarasamningum, og á sama tíma eru bankarnir að skila metafkomu,“ segir Ragnar. „Þetta er einfaldlega sturlað ástand að horfa upp á þetta.“

Seðlabankinn hefur ráðist í nokkrar stýrivaxtahækkanir til að koma böndum á verðbólguna en stýrivextir hafa hækkað um fjögur prósentustig frá því í upphafi árs 2021. Þá er búist við frekari hækkunum en Ragnar segir það galið þar sem þær hafi ekki skilað árangri.
„Mér sýnist einfaldlega staðan geta orðið hrikaleg ef að ekki verður gripið til einhverra mótvægisaðgerða, að stjórnvöld komi með mótvægisaðgerðir og sömuleiðis að Seðlabankinn láti af þessu dekri við fjármagnseigendur og fjármálakerfið, og fari að hugsa um fólkið í landinu og ekki fjárfesta,“ segir Ragnar.
Stjórnvöldum hafi mistekist að koma böndum á húsnæðismarkaðinn, sem keyri nú verðbólguna upp, og því beri þau ábyrgð á stöðunni. Ákall um þjóðarsátt eigi ekki við rök að styðjast að svo stöddu.

„Að kalla eftir þjóðarsátt, það verður ekki gert hjá einum aðila við samningsborðið. Við getum ekki kallað eftir þjóðarsátt frá fólkinu á meðan efsta lag samfélagsins er að skammta sér í rauninni nánast ótakmarkað, bæði eftir mikla veislu á hlutabréfamarkaði og síðan þessa mikla aukningu á vaxtartekjum bankanna sem að Seðlabankinn er að ýta undir,“ segir Ragnar.
Hann býst við hörðum kjaravetri þar sem líkurnar á átökum aukast eftir því sem tíminn líður og staðan eigi aðeins eftir að versna. Kjarasamningarnir í ár séu að ákveðnu leyti síðasta vígi fólksins til að spyrna við þar sem málamiðlun komi ekki til greina.
„Þegar enginn er tilbúinn til að sýna vott á ábyrgð eða sýna samfélaginu okkar og launafólki og almenningi í landinu nokkra einustu virðingu, að þá getum við alla vega bókað það að hún kemur alla vega ekki frá okkur til baka,“ segir Ragnar.