Elvar Logi Hannesson leikari stofnaði Kómedíuleikhúsið árið 1997 en það er fyrsta og eina atvinnuleikhús Vestfjarða. Hann hefur sett upp fjölmargar sýningar með góðri aðstoð Marsibilar Kristjánsdóttur, eiginkonu sinnar, eins og um Gísla á Uppsölum og fjórar leiksýningar, sem tengjast ævi og verkum Steins Steinars svo eitthvað sé nefnt.
Nú er það hins vegar einleikurinn um Samúel í Selárdal.
„Jú, jú, maður hefur nú farið ófáar ferðirnar hérna yfir Selárdalsheiðina, bæði þegar við Salome mín fluttumst yfir í Tálknafjörð, baukuðum þar í einhverja áratugi, nú svo þegar við fluttum aftur hingað í Selárdal,“ segir Elvar Logi í texta úr verkinu.

„Þetta er samkomuhúsið í Haukadal í Dýrafirði og hér erum við með leikhús, atvinnuleikhús Vestfjarða, það er til húsa hér í þessum dal þar sem engin býr,“ segir Elvar Logi og hlær og bætir við.
„Þetta er skal ég segja þér vinnustofa Samúels, sem er kallaður „Listamaðurinn með barnshjartað“ og hann var í öðrum dal hér í næsta firði, Selárdal og það var hann sem bjó sér til þessa veröld, sem er miklu flottari en Disney eða Lego eða eitthvað þannig. Þetta er svona harmskopleikur, líf hans er bæði átakanlegt og svo líka dásamlegt og eins og einhver leikhúsmaðurinn sagði, þá hreyfir þetta við manni,“ segir snillingurinn Elvar Logi.
