„Fyrir strandveiðimenn og sjávarbyggðirnar er gríðarlegt áfall að það sé verið að stöðva veiðarnar núna,“ segir Eyjólfur um stöðvun strandveiða.
Hann segir ákvörðunina „algjörlega í höndunum á ráðherranum“ og að hún geti bætt við tvö til þrjú þúsund tonnum svo strandveiðimenn geti veitt sína 48 daga. Hann segir að það sé það samkomulag sem hafi verið samið um á síðasta kjörtímabili.
Rætur núverandi vandræða segir Eyjólfur liggja í skiptimarkaðnum þar sem var skipt á 35 þúsund tonnum af loðnu og í staðinn hafi einungis komið eitt þúsund tonn í strandveiðipottinn.
Hann telur skiptimarkaðinn vera algjört klúður sem sýni hvernig kerfið sé orðið „algjört einokunarkerfi.“
Vill funda til að leysa úr málinu
Eyjólfur segir að ráðherranum beri að bæta það tjón sem strandveiðimenn urðu af í kjölfar skiptimarkaðarins þegar ráðherrann skerti kvótann um 1.500 tonn.
Af þessu tilefni óskaði Eyjólfur eftir fundi með Svandísi í vikunni ásamt öðrum þingmönnum Norðvesturkjördæmis. Að sögn Eyjólfs hefur Svandís svarað erindi hans sem hann segir mjög jákvætt, þó það verði ekki af fundi í þessari viku.
Þá hefur Eyjólfur aðeins heyrt frá einum öðrum þingmanni Norðvesturkjördæmis, Stefáni Vagn Stefánssyni Framsóknarmanni og fyrsta þingmanni kjördæmisins, sem hann segir hafa tekið mjög vel í fundinn.
„Þetta þak á strandveiðipottinum á ekkert að þurfa. Krókaveiðar á öngul ógna ekki fiskistofninum við landið, þetta er svipað og einn togari veiðir á ári,“ segir Eyjólfur að lokum og bætir við að stöðvun strandveiða sé „árás á afkomu fólks og atvinnufrelsi.“