Eftir að hafa tekið við verðlaunum sínum var Mané meðal annars spurður út í meintan ríg á milli sín og Salah. sem saman ollu andstæðingum Liverpool eilífum höfuðverk síðustu ár.
„Fólk segir stundum að það sé rígur á milli mín og Salah en ég get ekki séð að það sé þannig rígur á milli mín og nokkurs leikmanns, ef ég á að vera hreinskilinn,“ sagði Mané.
„Sambandið okkar er gott, við sendum hvor öðrum símaskilaboð. Ég held að fjölmiðlar reyni alltaf að gera hlutina verri,“ sagði Mané og ítrekaði að hann ætti í góðu sambandi við alla leikmenn sem hann hefði spilað með.
Mané, sem er þrítugur, skoraði úr vítinu sem tryggði Senegal Afríkumeistaratitilinn í byrjun árs í vítaspyrnukeppni gegn Salah og félögum í egypska landsliðin. Hann var einnig valinn knattspyrnumaður Afríku árið 2019 en verðlaunin voru svo ekki veitt í tvö ár vegna kórónuveirufaraldursins.
„Ég er afar, afar ánægður með að fá þessi verðlaun í ár. Ég vil þakka senegölsku þjóðinni og tileinka þessi verðlaun æskunni í landinu,“ sagði Mané sem átti líka sinn þátt í að koma Senegal í lokakeppni HM og vann enska bikarinn og deildabikarinn með Liverpool.