Norðmaðurinn Carlsen varð fyrst heimsmeistari árið 2013, þá einungis 22 ára gamall. Síðan árið 2014 hefur verið teflt um titilinn annað hvert ár og Magnus alltaf sigrað andstæðinga sína.
„Ég hef ekki til mikils að vinna, mér líkar ekkert sérstaklega við þetta og þó að ég sé viss um að skákin yrði áhugaverð upp á söguna, þá hef ég engan hvata til þess að tefla og ég mun einfaldlega ekki gera það,“ hefur vefsíðan Chess.com eftir Carlsen.
Carlsen átti að mæta rússneska stórmeistaranum Ian Nepomniachtchi sem sigraði áskorendamót nýlega sem tryggði honum keppnisrétt gegn sitjandi heimsmeistara. Í stað Carlsen mun Kínverjinn Ding Liren, sá sem lenti í öðru sæti á áskorendamótinu, tefla við Nepomniachtchi.
Carlsen segist ekki útiloka það að reyna við heimsmeistaratitilinn seinna en hann efast þó um það.