Tveimur og hálfu ári eftir að kórónuveirufaraldurinn setti allt í lamasess er fólk byrjað að ferðast á nýjan leik og er Ísland heitur áfangastaður.
Ferðamannabransinn hefur heldur betur tekið við sér og svipar fjöldi ferðamanna síðustu missera til þess sem sást fyrir faraldur. Ferðamenn dvelja sömuleiðis yfirleitt lengur og eyða meiru, sem bætir upp fyrir að þeir séu eilítið færri en árin fyrir faraldur.
Spár gera ráð fyrir að um 1,6 milljónir ferðamanna komi til Íslands í ár og allt að tvær milljónir á næsta ári. Til samanburðar komu tæplega 490 þúsund árið 2020 og tæplega 700 þúsund árið 2021. Nú er gríðarleg eftirspurn eftir gistingu, þar á meðal á nýjasta lúxushóteli Reykjavíkur.

„Þetta lítur mjög vel út núna. Ég held að júní hafi verið annasamasti mánuðurinn frá haustinu 2019 og við sjáum að Reykjavík og Ísland eru að lifna aftur við,“ segir Dennis Jung, framkvæmdastjóri Reykjavík Edition hótelsins.
Fjöldi ferðamanna hafi aukist hraðar en margir bjuggust við. „Mig hafði dreymt um þetta frá 2019 en staðan nú fer fram úr væntingum,“ segir Dennis aðspurður um hvort hann hafi séð fyrir sér í lok síðasta árs að þetta yrði staðan.
Vinnuafl af skornum skammti
Hótelið opnaði síðasta haust en það státar ríflega 250 herbergjum ásamt nokkrum veitingastöðum, börum, og bráðum næturklúbb.

Hótelið er því í stöðugri leit að vinnuafli en sömu sögu má segja annars staðar, sérstaklega í veitinga og þjónustugeiranum, þar sem atvinnuauglýsingum rignir inn á sama tíma og færri eru í atvinnuleit. Dennis segir það ekki beint vandamál, heldur frekar áskorun sem fleiri á heimsvísu eru að glíma við.
Einhverjir hafa haft orð á því að Ísland sé í raun uppselt en framkvæmdastjórinn segir það full djúpt í árina tekið.
„Það er sannarlega takmarkað framboð hótelherbergja og innviðum á Íslandi og því tel ég að fjöldinn verði slíkur að hámarki gistimöguleika verði náð,“ segir Dennis.
En við erum ekki komin á það stig enn?
„Nei, ekki enn.“