Víkingar hófu leikinn af miklum krafti og voru síst lakari aðilinn. Þungt og þreytt lið heimamanna átti erfitt með að skapa sér færi en fyrsta mark þeirra „var eins týpískt og það verður fyrir íslenskt lið í Evrópukeppni,“ eins og Guðmundur Benediktsson orðaði það en hann lýsti leiknum á Stöð 2 Sport.
Martin Olsson skoraði þá með skoti fyrir utan teig sem fór af varnarmanni og í netið. Þórður Ingason, markvörður Víkinga, hafði þegar skutlað sér og hefði án alls efa varið skot Olsson þægilega ef það hefði ekki farið af Víking og þaðan í netið.
Víkingar létu markið ekki á sig fá og sýndu lipra takta. Kristall Máni var allt í öllu en slakur dómari leiksins missti öll tök á leiknum um miðbik fyrri hálfleiks. Hann fór að spjalda Víkinga eins og óður maður, lyfti hann gula spjaldinu þrívegis á fimm mínútna kafla - eitt þeirra átti eftir að reynast dýrkeypt.
Þá er vert að taka fram að Oliver Ekroth, miðvörður Víkinga, skallaði aukaspyrnu Pablo Punyed í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Sá dómur var ef til vill réttur en sást einkar illa á sjónarhorninu sem boðið var upp í sjónvarpinu. Svo fékk Halldór Smári Sigurðsson spark aftan í hnakkann eftir hornspyrnu en dómarateymið sá ekkert athugavert við það.
Ekki pen??? Ók #eurovikes pic.twitter.com/HiguOI5tLD
— Pétur Mikael (@pesimikk) July 5, 2022
Þegar sjö mínútur voru til loka fyrri hálfleiks átti Pablo stórkostlega sendingu á Kristal Mána sem hafði búið sér til örlítið pláss inn í teig Malmö. Fyrsta snerting Kristals Mána var fullkomin og afgreiðslan enn betri.
Staðan orðin 1-1 og minnti Víkingurinn á sig með því að benda á merkið á bringunni og ´sussa´ létt á stuðningsfólk Malmö sem reyndi að kasta öllu lauslegu í hann. Dómara leiksins var svo misboðið að hann gaf Kristali Mána annað gult spjald.
Að þessu sinni fyrir að „ögra“ stuðningsfólki heimaliðsins en fyrra gula spjaldið var fyrir leikaraskap. Kristall Máni var ítrekað sparkaður niður framan af leik og var fyrra gula spjaldið í raun jafn umdeilanlegt og það seinna.
Ola Toivonen kom svo Malmö yfir undir lok fyrri hálfleiks með góðum skalla eftir fyrirgjöf frá hægri og staðan 2-1 heimamönnum í vil er liðin gengu til búningsherbergja.
Víkingar mættu með skýrt leikplan út í síðari hálfleikinn og tókst Malmö ekki að skapa sér nokkurn skapaðan hlut framan af. Það var ekki fyrr en misheppnuð hreinsun úr vörn Víkings á 84. mínútu féll fyrir fætur Sebastian Nanasi, sá renndi boltanum á Veljko Birmancevic sem skoraði úr þröngu færi.
Í stað þess að leggja árar í bát og væla þá fóru Víkingar í sókn. Helgi Guðjónsson, einn albesti varamaður síðari ára, elskar að skora mikilvæg mörk og gerði eitt slíkt í Svíþjóð. Eftir góðan sprett tókst honum að læða boltanum í gegnum klof varnarmanns Malmö í netið.
Mögulega fór boltinn aðeins í varnarmanninn en hverjum er ekki sama, lokatölur 3-2 og Víkingar eru enn inn í einvíginu.
Síðari leikur liðanna fer fram 12. júlí í Víkinni. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.