Fótbolti

Jesus eftirsóttur í Lundúnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það stefnir í að Gabriel Jesus spili í Lundúnum á næstu leiktíð.
Það stefnir í að Gabriel Jesus spili í Lundúnum á næstu leiktíð. EPA-EFE/Carl Recine

Tottenham Hotspur virðist ætla að stela Gabriel Jesus undan nefinu á nágrönnum sínum í Arsenal. Skytturnar hafa verið á eftir framherja Englandsmeistara Manchester City það sem af er sumri en nú er Tottenham komið inn í myndina.

Sumarið í enska fótboltanum snýst um eitt og eingöngu eitt, félagaskiptagluggann. Hver er að fara hvert, hvenær fer leikmaðurinn þangað og af hverju er hann að fara þangað. Undanfarnar vikur hefur Arsenal gefið skýrt í skyn að félagið sé á höttunum á eftir Gabriel Jesus, 25 ára gömlum framherja Englandsmeistara Man City.

Mikel Arteta vantar framherja eftir að Pierre-Emerick Aubameyang fékk að fara frítt til Barcelona og Alexandre Lacazette rann út á samningi. Þjálfarinn sá Jesus sem góða lausn þar sem hann mun að öllum líkindum spila töluvert minna eftir leikmannakaup sumarsins í Manchester-borg.

Nú virðist sem nágrannar Arsenal í Tottenham séu komnir í baráttunna um undirskrift brasilíska framherjans, allavega ef marka má mánudagsslúðrið á Bretlandseyjum.

Tottenham hafði betur gegn Arsenal í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu og gæti það heillað framherjann. Að sama skapi eru engar líkur að hann yrði framherji númer eitt á meðan Harry Kane er í herbúðum Tottenham svo það er spurning hvað Jesus gerir.

Síðan Jesus gekk í raðir Man City árið 2017 hefur hann spilað 236 leiki, skorað 95 mörk og lagt upp 46. Hann hefur unnið ensku úrvalsdeildinna fjórum sinnum, enska deildarbikarinn þrisvar og enska FA bikarinn einu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×