Fótbolti

Pogba gagn­rýnir Man Utd fyrir samnings­boð upp á nærri fimm­tíu milljónir á viku

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Paul Pogba sneri aftur til Manchester United árið 2016 en er nú farinn frá félaginu.
Paul Pogba sneri aftur til Manchester United árið 2016 en er nú farinn frá félaginu. Getty/Ash Donelon

Í dag kemur út heimildarmynd með Paul Pogba í aðalhlutverki. Í myndinni segir Pogba að Manchester United hafi ekki gert neitt til að halda sér hjá félaginu en vitað er að Pogba fékk samningstilboð upp á 300 þúsund pund á viku frá Man Utd.

Samningur hins 29 ára gamla Pogba við Man United rann út í sumar. Talið er að hann snúi aftur til Juventus – sem fékk hann einnig frítt frá Man Utd árið 2012 – en París Saint-Germain og Real Madríd eru líka inn í myndinni.

Pogba hefur verið mikið á milli tannanna á fólki vegna frammistöðu sinnar og oftar en ekki ummæla um Man United. Búast má við að hin nýja heimildarmynd helli olíu á þann eld.

„Ég ætla að sýna Manchester að þeir gerðu mistök að bíða svo lengi með að gefa mér samning,“ segir miðvallarleikmaðurinn meðal annars í myndinni sem verður frumsýnd í dag, á Þjóðhátíðardag Íslendinga.

Þá tekur Pogba sérstaklega fram að Man Utd hafi ekki gert neitt til að halda sér hjá félaginu. Honum var samt boðinn samningur upp á 300 þúsund pund á viku eða tæplega 50 milljónir króna. 

Það samsvarar árslaunum upp á tæplega 2600 milljónir eða 2,6 milljarða íslenskra króna.

Hvar og hvenær Pogba ætlar að sýna Man Utd að félagið hafi gert mistök á eftir að koma í ljós en leikmaðurinn hefur verið fjarri góðu gamni að undanförnu. 

Á sama tíma hefur það reynst þrautin þyngri fyrir Man Utd að finna leikman í hans stað en félagið á enn eftir að láta til sín taka á félagaskiptamarkaðnum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×