Árni var mikið í fréttum undanfarin ár en hann var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2017 fyrir tilraun til manndráps. Árni var svo sýknaður í Landsrétti í mars í fyrra og skaðabótamál í undirbúningi vegna máls hans.
Hjalti Úrsus Árnason, faðir Árna, staðfestir andlát hans í samtali við Vísi. Hann segir að Árni hafi fallið frá fyrr í vikunni. Árni hafi aldrei fengið neina afsökunarbeiðni eftir niðurstöðu dómsmáls hans í Landsrétti og það hafi alltaf legið þungt á honum.
Mál Árna hafði lengi verið til meðferðar í dómskerfinu en hann hlaut í tvígang fjögurra ára fangelsisdóm í héraði. Árni var sakaður um að hafa stungið annan mann með hnífi í höfuðið í átökum á milli þeirra í Leifasjoppu í Breiðholti í mars 2017. Maðurinn fékk gat í höfuðkúpuna. Árni neitaði sök í málinu frá upphafi og hélt því fram að hann hafi aðeins varist árás mannsins sem hlaut stungusár í höfuðið.
Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi Árna upphaflega fyrir árásina og fleiri brot árið 2017 og dæmdi í fjögurra ára fangelsi. Hæstiréttur ómerkti dóminn í manndrápstilraunarmálinu og vísaði aftur heim í hérað.
Fjölskipaður héraðsdómur fjallaði því aftur um málið og komst að sömu niðurstöðu um fjögurra ára fangelsi. Árni áfrýjaði niðurstöðunni til Landsréttar sem sneri dómnum við.
Faðir Árna, Hjalti Úrsus, var mjög gagnrýninn á dómskerfið og lögreglu í kjölfarið og boðaði skaðabótamál í anda Guðmundar- og Geirfinnsmála.