Fótbolti

Getur þakkað „bol“ úr lögreglunni fyrir líf sitt

Valur Páll Eiríksson skrifar
Emerson var heppinn að hafa lögreglumann sér við hlið.
Emerson var heppinn að hafa lögreglumann sér við hlið. James Williamson - AMA/Getty Images

Emerson Royal, varnarmaður Tottenham Hotspur á Englandi, slapp ómeiddur eftir misheppnaða ránstilraun í Brasilíu í nótt. Vopnaðir menn reyndu að ræna Emerson en fótboltamaðurinn var heppinn að hafa lögreglumann sér við hlið.

Emerson var að yfirgefa næturklúbb í Sao Paulo um klukkan þrjú í nótt, hvar hann hafði eytt kvöldinu með fjölskyldu og vinum, þegar vopnaðir menn beindu að honum byssu og kröfðu hann um veski og skartgripi.

Svo heppilega vildi til að Emerson hafði skömmu áður veitt lögreglumanni, sem ekki var á vakt, leyfi til að taka mynd með sér - svokallaða „bolamynd“. Lögreglumaðurinn var vopnaður og sá í hvað stefndi, svo hann dró upp skotvopn sitt og segja brasilískir miðlar að alls hafi 29 skotum verið hleypt af.

Eitt skotanna hæfði einn ræningjanna í bakið og þurfti hann að leita á spítala. Emerson gat hins vegar komið sér undan og slapp ómeiddur.

„Ég var úti að skemmta mér og á leiðinni út hófst þessi atburðarrás, sem var mjög slæmt. Sannarlega hörmuleg uppákoma. Ég óska engum svona lagað,“ hefur O Liberal eftir föður Emersons, sem var með honum í gærkvöldi.

Emerson gekk til liðs við Tottenham frá Barcelona síðasta sumar og var hluti af liðinu sem tryggði sér Meistaradeildarsæti í vor. Hann á sjö landsleiki að baki fyrir Brasilíu og vonast til að vinna sér inn sæti í landsliðhópnum fyrir HM í Katar í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×