Þrátt fyrir að enn séu tvær umferðir eftir af deildinni er Magdeburg nú þegar búið að tryggja sér titilinn. Fyrir leik kvöldsins þurfti liðið aðeins eitt stig úr seinustu þremur leikjum sínum til að verða meistari.
Magdeburg tók á móti Íslendingaliði HBW Balingen-Weilstetten sem situr í næst neðsta sæti deildarinnar og því bjuggust flestir við nokkuð öruggum sigir Magdeburg.
Gestirnir í Balingen gáfu heimamönnum þó hörkuleik og þegar flautað var til hálfleiks var staðan jöfn, 15-15.
Heimamenn í Magdeburg áttu í nokkrum erfiðleikum með að hrista fallbaráttuliðið af sér og þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka var staðan enn jöfn, 24-24. Magdeburg náði þá góðu áhlaupi á lokamínútunum og vann að lokum fimm marka sigur, 31-26, og titillinn því í höfn.
Ómar Ingi Magnússon var markahæsti leikmaður Magdeburg og skoraði sjö mörk í kvöld. Gísli Þorgeir Kristjánsson átti einnig góðan leik og skoraði fjögur mörk. Daníel Þór Ingason og Oddur Grétarsson komust ekki á blað fyrir Balingen.
WIR SIND DEUTSCHER MEISTER!!!
— SC Magdeburg (@SCMagdeburg) June 2, 2022
DANKE 💚❤️ pic.twitter.com/WYp1zmg7sL
Þá voru fleiri Íslendingar í eldlínunni á sama tíma, en Janus Daði Smárason skoraði sex mörk er Göppingen vann tveggja marka sigur gegn Ými Erni Gíslasyni og félögum í Rhein-Neckar Löwen, 30-28.
Að lokum þurftu Viggó Kristjánsson, Andri Már Rúnarsson og félagar þeirra í Stuttgart að sætta sig við tveggja marka tap gegn Tus N-Lubbecke, 29-31.