Fótbolti

Ari hafði betur í fimm marka Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ari Leifsson lék allan leikinn í liði Strømsgodset.
Ari Leifsson lék allan leikinn í liði Strømsgodset. mynd/godset.no

Ari Leifsson og félagar hans í Strømsgodset unnu góðan 3-2 sigur er liðið tók á móti Íslendingaliði Viking í norska fótboltanum í dag.

Ari lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Strømsgodset, en í liði Viking voru Patrik Gunnarsson og Samúel Friðjónsson á sínum stað í byrjunarliðinu.

Heimamenn í Strømsgodset tóku forystuna eftir um tuttugu mínútna leik, en gestirnir jöfnuðu metin af vítapunktinum stuttu fyrir hálfleik og staðan því 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja.

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og skoruðu tvö mörk stuttu eftir að leikurinn hófst á ný.

Gestirnir minnkuðu muninn á 71. mínútu, en nær komust þeir ekki og niðurstaðan varð því 3-2 sigur Strømsgodset.

Ari og félagar sitja nú í fjórða sæti deildarinnar með 17 stig eftir tíu leiki. Viking hefur leikið einum leik meira og hefði komið sér fyrir á toppi deildarinnar með sigri. Úrslit dagsins þýða hins vegar að liðið situr í öðru sæti deildarinnar með 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×