Fótbolti

Enn stöðvar inflúensan lið Brynjólfs sem hefur sloppið og fer til Íslands í dag

Sindri Sverrisson skrifar
Brynjólfur Willumsson er í íslenska U21-landsliðshópnum sem spilar þrjá heimaleiki 3.-11. júní.
Brynjólfur Willumsson er í íslenska U21-landsliðshópnum sem spilar þrjá heimaleiki 3.-11. júní. Getty

Brynjólfur Willumsson og félagar í norska knattspyrnuliðinu Kristiansund geta ekki mætt Sandefjord á sunnudaginn vegna þess að inflúensa A hefur leikið lið Kristiansund grátt.

Leiknum hefur því verið frestað rétt eins og leik við Tromsö sem fara átti fram fyrr í þessari viku.

„Þrír af fjórum þjálfurum liðsins eru veikir, yfirmaður félagsins sem og margir leikmannanna. Ég er að reyna að ná yfirsýn yfir þetta með lækni félagsins,“ segir Terje Wiik, yfirmaður íþróttamála hjá Kristiansund.

Brynjólfur svaraði því til við Vísi að hann hefði hingað til sloppið við smit en að æfingar hefðu verið afar fámennar síðustu daga. Hann var einn fjögurra leikmanna aðalliðsins sem gátu æft af fullum krafti og voru leikmenn úr unglingaliðinu fengnir til að vera með.

Næsti leikur Kristiansund er ekki fyrr en eftir miðjan júní og Brynjólfi var því leyft að fljúga heim til Íslands í dag.

Brynjólfur er í U21-landsliðshópnum sem leikur í undankeppni EM gegn Liechtenstein, Hvíta-Rússlandi og Kýpur. Leikirnir fara allir fram á Víkingsvelli 3., 8. og 11. júní.

„Því miður er enn mikið um smit í liðinu. Rétt eins og á miðvikudaginn hefði ekki verið rétt gagnvart liðunum sem eiga í hlut né öðrum liðum í deildinni að láta þau spila,“ sagði Nils Fisketjönn, mótastjóri hjá norska knattspyrnusambandinu.

Kristiansund bíður enn eftir fyrsta sigri sínum á tímabilinu en liðið er aðeins með eitt stig eftir sjö leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×