Stuðningur almennings í Finnlandi við inngöngu hefur aukist gríðarlega eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Forsætisráðherra Finnlands hefur lýst því yfir að þingið muni afgreiða málið hratt og örugglega, þrátt fyrir hótanir Rússlands um aukna kjarnorkuvirkni við Eystrasaltshafið gangi Svíar og Finnar til liðs við bandalagið.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var stödd í Finnlandi fyrir stuttu síðan.
„Það fer auðvitað ekki fram hjá nokkrum manni að þessi umræða gríðarlega ofarlega á baugi og vegna þess að sagan er auðvitað dálítið merkileg. Ég meina Finnar hafa auðvitað átt mikil samskipti við nágranna sína í austri sögulega og það er flókin saga. Þá er þetta mjög róttæk breyting ef úr verður að Finnland og mögulega Svíar ákveða að söðla um og ganga í Atlantshafsbandalagið.“
Í úttekt sem finnsk stjórnvöld gerðu vegna hugsanlegrar inngöngu í Atlantshafsbandalagið kemur fram að líklega myndi spennan á milli Rússa og Finna aukast til skamms tíma við inngöngu Finna í bandalagið en til langs tíma myndi inngangan auka öryggi Finna.
„Í fyrsta lagi höfum við sagt að við bara styðjum þessi ríki til að taka sínar eigin ákvarðanir í þessum efni. Í öðrum lagi þá er mikilvægt og við erum að vinna í raun og veru okkar áhættumat. Fórum strax af stað í þá vinnu eftir innrásina en það er mikilvægt að taka þá tillit til þess að þetta getur að einhverju leyti breytt svona, hvað getum við sagt, öryggisstrúktúrnum hér í Evrópu.“