Umræðan

Hæfir fjárfestar og útboð hlutabréfa

Andri Fannar Bergþórsson skrifar

Eftir síðustu sölu ríkisins á hlutabréfum í Íslandsbanka hefur mikið verið rætt um svokallaða hæfa fjárfesta og útboð hlutabréfa. Gagnrýnt hefur verið meðal annars að almenningi hafi ekki verið boðið að fjárfesta í hlutabréfunum og aðeins þröngur hópur aðila, sem voru flokkaðir sem hæfir fjárfestar, fengu að taka þátt í útboðinu. Ég hafði alls ekki hugsað mér að fjalla hér efnislega um framkvæmd útboðsins heldur útskýra, vonandi með einföldum hætti, hvað sé átt við með hæfum fjárfestum og útboði hlutabréfa.

Markmið með upplýsingagjöf í útboðum

Þegar hlutabréf eru boðin til sölu í útboði er meginreglan sú að gefa þarf út lýsingu sem inniheldur þær upplýsingar sem fjárfestir þarf á að halda til að taka upplýsta fjárfestingarákvörðun, til dæmis hvort hann vilji yfir höfuð kaupa hlutabréfin og hvaða verð hann er tilbúinn til að greiða fyrir hlutina. Þetta á við hvort sem hlutabréfin eru boðin til sölu í fyrsta skipti eða þau eru endurseld, líkt og var með síðustu sölu ríkisins á hlutabréfum í Íslandsbanka. Markmiðið með upplýsingagjöf í útboðslýsingum er að vernda fjárfesta með því að koma í veg fyrir ósamræmi í upplýsingum milli þeirra og útgefanda hlutabréfanna (eða þeirra sem selja stóran hlut í félaginu ef hlutabréfin hafa þegar verið gefin út).

Gerðar eru ýmsar undantekningar frá útgáfu lýsingar í útboðum, sem geta byggst ýmist á smæð útboðs, fjárhagslegum styrkleika og/eða sérþekkingu fjárfesta. Í lögum sem gilda um slík útboð er veitt undanþága frá útgáfu lýsingar þegar hlutabréf eru eingöngu boðin svokölluðum hæfum fjárfestum, en það eru þeir aðilar sem eru flokkaðir sem fagfjárfestar af til dæmis bönkum og verðbréfafyrirtækjum. Undanþágan byggir á þeirri hugsun að þeir sem teljast hæfir fjárfestar þurfi ekki á þeirri vernd að halda sem útgáfa lýsingar felur í sér vegna sérþekkingar og oft og tíðum líka fjárhagslegs styrkleika. Í raun má segja að gengið sé út frá því að þeir sem eru flokkaðir sem hæfir fjárfestar búi yfir nægilegri þekkingu til að geta metið sjálfir áhættuna af viðskiptunum.

Þegar hlutabréf eru boðin til sölu í útboði er meginreglan sú að gefa þarf út lýsingu sem inniheldur þær upplýsingar sem fjárfestir þarf á að halda til að taka upplýsta fjárfestingarákvörðun, til dæmis hvort hann vilji yfir höfuð kaupa hlutabréfin og hvaða verð hann er tilbúinn til að greiða fyrir hlutina.

Hverjir geta talist hæfir fjárfestar?

Þeir sem geta talist hæfir fjárfestar eru þeir aðilar sem eru flokkaðir sem fagfjárfestar samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga. Hæfir fjárfestar geta einnig verið svokallaðir viðurkenndir gagnaðilar, en það eru í raun fagfjárfestar sem njóta nánast engrar fjárfestaverndar vegna sérfræðiþekkingar sinnar, til dæmis aðrir bankar, verðbréfafyrirtæki og meira að segja seðlabankar. Til að einfalda umfjöllunina ætla ég að láta nægja að útskýra hverjir geta talist fagfjárfestar.

Í lögunum eru fagfjárfestar skilgreindir sem þeir viðskiptavinir sem búa yfir reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að taka sjálfir ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem þeim fylgir. Gerður er síðan greinarmunur á viðskiptavinum sem ættu sjálfkrafa að teljast fagfjárfestar og þeim viðskiptavinum sem geta óskað eftir því að vera álitnir fagfjárfestar. Þeir sem ættu að teljast sjálfkrafa fagfjárfestar eru taldir upp í fjórum liðum og byggist sú flokkun á því að fjármálafyrirtæki megi gera ráð fyrir að þessir aðilar búi yfir nægilegri reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að taka sjálfir ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættu sem þeim fylgir. Þetta eru til dæmis fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir, ríkisstjórnir og stór fyrirtæki sem uppfylla ákveðin skilyrði um stærð efnahagsreiknings og veltu.

Þótt viðskiptavinur uppfylli ekki skilyrði til að flokkast sjálfkrafa sem fagfjárfestir getur hann óskað eftir því að fjármálafyrirtæki flokki hann sem fagfjárfesti, en frumkvæði að slíkri flokkun þarf að koma frá viðskiptavininum sjálfum. Ástæðan er sú að slík flokkun (úr því að teljast almennur fjárfestir yfir í fagfjárfesti) hefur í för með sér lakari fjárfestavernd fyrir viðskiptavininn. Lögin fela jafnframt í sér að fjármálafyrirtækjum er óheimilt að hvetja með einhverjum hætti eða þrýsta á viðskiptavin að óska eftir því að vera flokkaður sem fagfjárfestir.

Þótt viðskiptavinur uppfylli ekki skilyrði til að flokkast sjálfkrafa sem fagfjárfestir getur hann óskað eftir því að fjármálafyrirtæki flokki hann sem fagfjárfesti, en frumkvæði að slíkri flokkun þarf að koma frá viðskiptavininum sjálfum.

Óski viðskiptavinur eftir því að verða flokkaður sem fagfjárfestir skal fjármálafyrirtæki leggja mat á sérfræðikunnáttu, þekkingu og reynslu viðskiptavinarins og hvort hún veiti nægilega vissu fyrir því að hann geti sjálfur tekið ákvarðanir um fjárfestingar og skilji áhættuna sem í þeim felst. Auk þess þarf viðskiptavinur samkvæmt lögunum að uppfylla að minnsta kosti tvö af þremur skilyrðum til að hægt sé að fara með hann sem fagfjárfesti.

Fyrsta skilyrðið, sem aðili þarf að uppfylla (tvö af þremur) til að hægt sé að flokka hann sem fagfjárfesti, er að hann hafi átt umtalsverð viðskipti á viðeigandi markaði næstliðna fjóra ársfjórðunga, að meðaltali að minnsta kosti tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi. Þegar metið er hvort viðskiptin hafi verið umtalsverð þarf að skoða meðal annars stærðina á viðskiptunum á viðkomandi markaði. Miðað er aðallega við stærð viðskiptanna frekar en tíðni þeirra. Til að meta hvort viðskiptin hafi verið af nægilegri stærðargráðu þarf að skoða hvort einstök viðskipti voru það stór að þau fólu í sér þýðingarmikla áhættu fyrir viðskiptavininn á viðkomandi markaði þannig að þau stuðluðu að því að viðskiptavinurinn öðlaðist nægjanlega kunnáttu, þekkingu og reynslu til að skilja þá áhættu sem fælust í viðskiptunum.

Mikilvægt er því að tryggja að aðeins þeir sem hafa nægilega þekkingu og reynslu séu flokkaðir sem fagfjárfestar.

Annað skilyrði felur í sér að verðgildi fjármálagerninga og innstæðna fjárfestis nemi samanlagt meira en jafnvirði 500.000 evra, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Að lokum felur þriðja skilyrðið í sér þá kröfu að fjárfestir gegni eða hafi gegnt, í að minnsta kosti eitt ár, stöðu í fjármálageiranum sem krefst þekkingar á fyrirhuguðum viðskiptum eða þjónustu.

Af þessari upptalningu sést að ströng skilyrði eru fyrir því viðskiptavinur sem telst ekki sjálfkrafa fagfjárfestir sé flokkaður sem slíkur. Ástæðan er sú að fjárfestar sem falla í þann flokk njóta minni fjárfestaverndar en almenni fjárfestirinn, til  dæmis varðandi upplýsingagjöf og fjárfestingarkosti. Mikilvægt er því að tryggja að aðeins þeir sem hafa nægilega þekkingu og reynslu séu flokkaðir sem fagfjárfestar.

Höfundur er dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.




Umræðan

Sjá meira


×