Þegar tíu sekúndur voru eftir fiskaði Eyjamaðurinn Ágúst Emil Grétarsson vítakast fyrir Gróttu. Andri Þór Helgason tók það, skoraði og jafnaði í 36-36. Dómarar leiksins, þeir Vilhelm Gauti Bergsveinsson og Ólafur Víðir Ólafsson, stoppuðu hins vegar tímann sem gaf Eyjamönnum tækifæri til að taka leikhlé og stilla upp í lokasókn.
Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, tók leikhlé þegar átta sekúndur voru eftir. Að því loknu fór Sigtryggur Daði Rúnarsson upp í skot og skoraði þegar tvær sekúndur voru eftir og tryggði heimamönnum stigin tvö, 37-36.
Þar með gerði hann líka út um möguleika Gróttu á að komast í úrslitakeppnina. Ef leikurinn hefði endað með jafntefli hefði Grótta farið í úrslitaleik við KA um sæti í úrslitakeppninni í lokaumferð Olís-deildarinnar á sunnudaginn.
Arnar Daði var afar óhress með dómararnir, sem honum finnst hafa fengið óhóflegt lof fyrir frammistöðu sína í vetur, hafi stöðvað tímann þegar Grótta fékk vítakastið undir lok leiks.
„Það sem gekk á var að við vorum manni færri síðustu 6-7 mínúturnar. Við gerðum nákvæmlega allt sem við þurftum til að innbyrða eitt stig sem hefði dugað okkur til að fara í úrslitaleik á móti KA. En það sem við klikkum á er, út frá því hverjir eru að dæma, er að við fáum þetta víti þegar tíu sekúndur eru eftir. Ólafur Víðir og Vilhelm Gauti sem eru nýir í faginu en hafa fengið ótrúlegt lof fyrir einhverja frammistöðu sem ég hef ekki enn séð. Fólk getur blaðrað stundum og talað í frösum,“ sagði Arnar Daði.
„Þeir taka þá ákvörðun að stoppa leikinn þegar tíu sekúndur voru eftir og eina sem mér dettur í hug er einfaldlega til þess að þeir vildu að ÍBV myndi fá tækifæri til að skora í lokasókninni. Annars gerðum við allt til að innbyrða stig.“
Lokasekúndurnar í leik ÍBV og Gróttu og hluta af viðtalinu við Arnar Daða má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Farið verður yfir 21. og næstsíðustu umferð Olís-deildarinnar klukkan 21:00 á Stöð 2 Sport 4 í kvöld.